0 Comments
Næsta laugardag, 25. janúar mun Ástvaldur Zenki-sensei flytja fyrirlesturinn "Orðin tóm" í húsakynnum Nátthaga að Kletthálsi 1, 2. hæð til hægri. Fyrirlesturinn er öllum opinn og er stundvíslega frá kl. 09.15 - 10:15. En á undan honum er hugleiðsla frá kl. 08.00 og er líka öllum velkomið að taka þátt í henni. Ástvaldur segir: "Zen hugleiðsla, eða Zazen, er iðkun sem byggir ekki á orðum eða hugmyndafræði heldur beinir iðkandinn athygli sinni að því sem er akkúrat núna án þess að vilja breyta neinu. [...] Allt sem til er í heiminum hefur aðeins einn stað til að vera til á og það er núna. Ekkert hefur nokkurntíman verið til fyrir utan núna, það er ekkert áðan og ekkert á eftir."
Eins og áður segir þá eru allir innilega velkomnir á fyrirlesturinn næsta laugardag og aðgangur er ókeypis. En dagskrá laugardagsins hefst með sitjandi hugleiðslu kl. 08:00. Hlakka til að sjá ykkur öll á laugardaginn. Kæru félagar, Næstkomandi laugardag 18. janúar höldum við í Nátthaga upp á nýja árið og brennum karmað okkar í táknrænni athöfn. En dagskráin er svona: 08:00 Zazen 08:40 Nýársathöfn 09:10 Nýárskaffi Karma er óumflýjanlegt og órjúfanlegur hluti af því að vera hugsandi manneskja. Við erum öll föst í vanabundinni hegðun og hugsunum. Þegar við brennum karmað skrifum við á miða eitthvað sem við erum tilbúin að sleppa, eitthvað í fari okkar eða vanamynstrum sem þjónar okkur ekki lengur. Svo brennum við miðann og tjáum þannig á táknrænan hátt okkar einlægu heit um að líf okkar, hugsun, orð og athafnir, verði til blessunar öllum skynverum og leggjum okkar að marki til friðar og jafnréttis. Að lokinni athöfninni fáum við okkur svo kaffi og eigum saman góða stund. Ykkur er að sjálfsögðu velkomið að bjóða með ykkur vinum og fjölskyldu.
Ég hlakka til að sjá ykkur. Gassho, Zenki Ég óska ykkur gleðilegs nýs árs með þökk fyrir viðburðarríkt ár sem nú er runnið sitt skeið. Dvöl mín í Toshoji og vígsla í Eiheiji og Sojiji setja svip sinn á liðið ár auk þess sem við erum nú komin í nýtt og glæsilegt húsnæði á Kletthálsi 1. Það má með sanni segja að við höfum haft byr undir báða vængi undanfarin ár og engin ástæða til að ætla annað á nýju ári. Kjarni starfsemi okkar er iðkun zazen. Það er djúp ósk mín að okkar sameiginlega iðkun sem sanga (samfélag iðkenda), okkar persónulega iðkun og uppljómun verði öllu lífi til blessunar og framdráttar. Okkar einlægu heit sem eiga sér djúpar rætur í visku og kærleika vekja hjá okkur skilning á því að það skiptir máli hvað við hugsum, segjum og gerum, hvernig við lifum og hverju við veitum athygli. Við skulum, í krafti okkar iðkunar, vera óhrædd við að stíga fram og leggja okkar lóð á vogarskálar jafnréttis, sáttar og friðar á jörðu.
Að koma saman í zazen hugleiðslu og leggja sína eigin þjáningu í faðm söngunnar er í raun magnað og miklu stærra og dýpra en mann skyldi gruna. Sanga er einn af fjársjóðunum þremur: Búdda, Darma og Sanga. Sangan er hornsteinn iðkunar okkar því án hennar er engin iðkun og engin uppljómun. Þegar við iðkum saman gefum við hvort öðru rými og tækifæri til að fara dýpra og sjá skýrar. Að veita öðrum tækifæri til að iðka á þennan hátt er ein besta gjöf sem við getum gefið okkur sjálfum og öðrum. Ég hlakka til að hitta ykkur og iðka með ykkur á nýju ári! Í anda Zen, Ástvaldur Zenki |
Eldra
August 2023
HöfundurZen á Íslandi Efni |
Zen á Íslandi | Fréttir og tilkynningar |
Vertu vinur okkar á Facebook
|
Félag
Zen á Íslandi-Nátthagi kt. 491199-2539 |
Bankareikningur
kt. 491199-2539 reikn. 111-26-491199 |