Laugardaginn 2. nóvember frá kl. 08:00 - 13:00 verður haldinn Dagur vakandi athygli hjá Zen á Íslandi - Nátthaga. Dagskráin hefst kl. 08:00 með tveimur zazen hugleiðslusetum og gönguhugleiðslu inn á milli. Svo tekur við morgunverður og leshringur. Við munum lesa textann "Að snúa útgeislun sinni innávið" úr bók kennara okkar Jakusho Kwong-roshi í þýðingu Óskars Ingólfssonar. En þar segir meðal annars: Uppspretta án uppsprettu. Ástæðan fyrir því að það er kallað uppspretta án uppsprettu er sú að uppsprettan er okkar upprunalegi hugur, sem við erum hluti af. Það er ekki talað um "án uppsprettu" til að gefa því frumlegt nafn. Ef við segjum aðeins "uppspretta" virðist það vera eitthvað ákveðið og í framhaldi af því leitum við þessarar uppsprettu. Hvað er átt við þegar talað er um eitthvað "án uppsprettu?" Hvað er það? Við hvorki skiljum né getum skilgreint það á hlutlægan hátt eins og við erum vön, en í þeim heimi sem er "án uppsprettu" finnum við þann stað sem tilheyrir djúpu samadhi í zazen. Þegar við höfum lesið textann og rætt hann okkar á milli þá ljúkum við Degi vakandi athygli með því að hugleiða aftur tvisvar með gönguhugleiðslu inn á milli. Þegar við iðkum á Degi vakandi athygli leyfum við ljósi hinnar vakandi athygli að skína og iðkum af heilum hug. Vonumst til að sjá ykur sem flest.
0 Comments
Næstkomandi laugardag 26. október munum við halda leshring hjá Zen á Íslandi - Nátthaga, að Kletthálsi 1, 2. hæð til hægri. Í þetta sinn lesum við textann "Í zazen þar sem ekkert er að öðlast" eftir Issho Fujita í þýðingu Brynjars Shoshin. Issho Fujita er japanskur Zen prestur sem tók vígslu í Antai-ji hofinu þar sem Kodo Sawaki og Uchiyama Roshi voru ábótar á sínum tíma, en við höfum lesið mikið af textum þessara miklu kennara í gegnum árin. Fujita flutti til Massachusetts í Bandaríkjunum þar sem hann var ábóti í Pioneer Valley Zendo, sem er systur hof Antai-ji í Bandaríkjunum. Á þessum tíma kenndi Fujita í mörgum háskólum og 2010 var hann gerður að stjórnanda Soto Zen International Center í San Francisco. Fujita er skemmtilegur kennari sem reynir að finna upp á nýjum og skemmtilegum leiðum til að dýpka hina einföldu iðkun zazen og shikantaza. Á myndinni sem fylgir, og tekin var í heimsókn Issho Fujita til Sonoma Zen Center, má m.a. sjá Helgu Kimyo-roshi, Nyoze Kwong, Issho Fujita fyrir miðju, Ástvald Zenki vinstra megin við hann og Jakusho Kwong-roshi kennara okkar hægra megin. En í textanum sem við lesum næsta laugardag fjallar Fujita um mikilvægi þess með hvaða viðhorfi við sitjum á púðanum og meðal annars: Væri ekki alveg í lagi að segja að gæði zazen séu í raun háð þessu viðhorfi sem við höfum jafnvel áður en við byrjum að iðka zazen? Hvað varðar raunverulega zazen iðkun okkar er útkoman nánast ákveðin áður en við 'stígum upp á sviðið.' Þegar við setjumst á púðann, með hvaða viðhorfi mætir þú zazen? Leynast ekki í huganum einhverjar væntingar um að þú munir fá eitthvað í skiptum fyrir iðkun zazen? Hve djúpur er skilningur þinn á að zazen er ekki leið til að ná einhverju? Við byrjum dagskrá laugardagsins með zazen, eða sitjandi hugleiðslu, kl. 08:00 en leshringurinn er svo frá kl. 10:15 - 11:15. Allir eru velkomnir og við vonumst til að sjá ykkur sem flest. Djúpt Gassho.
Næsta laugardag, 19. október frá kl. 09:15 - 10:15 mun Ástvaldur Zenki-sensei flytja Darmaræðu í húsakynnum Nátthaga að Kletthálsi 1, 2. hæð til hægri. Yfirskrift ræðunnar er "Vakandi athygli í dagsins önn". Ástvaldur segir: "Að iðka Zazen hjálpar okkur að vera vakandi í eigin lífi, að vera samstíga lífinu og alheiminum og að vera meðvitaður um það hvað það er að vera manneskja. Ekki bara á yfirborðskenndan hátt heldur á djúpan og einlægan máta. Með iðkun vakandi athygli lærum við að vera heiðarleg við okkur sjálf og taka eftir því hvað er að gerast í kringum okkur og hvernig við bregðumst við í okkar vanamynstri. Við lærum að staldra við og sjá djúpt og skýrt og gangast við öllu sem er. Þannig tökum við ábyrgð á eigin lífi sem er um leið líf okkar allra, stærra og víðfeðmara en við getum ímyndað okkur. Slík iðkun hjálpar okkur að stíga út úr okkar þjáningarfulla vanamynstri og taka þátt í lífinu á einlægari hátt.
Allt breytist stöðugt og oftast ekki í samræmi við okkar eigin væntingar og vilja. Hversu lengi búumst við við að lifa? Hversu lengi njótum við samvista við fjölskyldu og vinum sem við elskum? Lífið er dýrmætt og viðkvæmt og í senn fallegt og hættulegt. Með því að iðka Zazen lærum við að meta lífið og lifa til fulls. Að lifa til fulls er að vera óhræddur og sjá skýrt að það hvernig við kjósum að lifa lífinu hefur áhrif á allt, að líf einnar manneskju er ekki aðskilið öðru lífi. Ekkert hefur sjálfstæða tilveru aðskilda öllu öðru. Í miðjum erli hversdagsins gerist lífið, sem í fljótu bragði virðist óreiðukennt og kvikt. En þegar betur er að gáð sjáum við það skýrt að lífið er fullkomlega kyrrt og alltaf akkúrat hér og nú, getur hvergi annarsstaðar verið. Og ef við sitjum hljóð og leggjum við hlustir Þá heyrum við lífið hvísla; Viltu ekki vera memm?" Allir eru innilega velkomnir á ræðuna næsta laugardag og aðgangur er ókeypis. Athugið að dagskrá laugardagsins hefst með sitjandi hugleiðslu kl. 08:00. Níu djúpar beygjur. |
Eldra
September 2024
HöfundurZen á Íslandi Efni |
Zen á Íslandi | Fréttir og tilkynningar |
Vertu vinur okkar á Facebook
|
Félag
Zen á Íslandi-Nátthagi kt. 491199-2539 |
Bankareikningur
kt. 491199-2539 reikn. 111-26-491199 |