Rohatsu er japanska og vísar til dags uppljómunar Búdda. Hefð er fyrir því að halda daginn hátíðlegan og sitja hugleiðslu inn í nóttina. Við hjá Zen á Íslandi - Nátthaga sitjum því hugleiðslu frá kl. 21:00 föstudagskvöldið 2. desember næstkomandi og til kl. 1:00 aðfararnótt laugardagsins. Dagur uppljómunar Búdda er hátíðisdagur allra búddista. Þá höldum við uppá að Siddhartha Gautama uppljómaðist sem Shakyamuni Búdda. Sagan á bak við þennan dag uppljómunar er í raun saga búddismans. Hún er líka saga um andlegt ferðalag venjulegs manns til uppljómunar, svo og saga kennslu hans og þeirra aðferða sem hann kenndi okkur til að lifa lífinu. Þegar þessi maður, Siddhartha Gautama, fann leiðina til uppljómunar þá leiddist hann af braut þjáningar og endurfæðingar, inn á braut uppljómunar og varð þá þekktur sem hinn uppljómaði, Shakyamuni Búdda, eða bara Búdda. Iðkendur sem ekki hafa setið Rohatsu velta því gjarnan fyrir sér hvort þetta sé ekki langur tími til að iðka sitjandi hugleiðslu, í 4 klukkustundir. En reyndin er sú, að sögn þeirra sem áður hafa setið Rohatsu, að tíminn breytist þegar maður situr zazen í langan tíma. Klukkustund getur virst sem tuttugu mínútur og tuttugu mínútur geta virst sem klukkustund. Við viljum því hvetja alla iðkendur til að mæta og upplifa Rohatsu með okkur núna í byrjun desember mánaðar. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest, en það er engin seta laugardagsmorguninn á eftir.
0 Comments
Næstkomandi laugardag 19. nóvember 2022 mun Zen kennari okkar Ástvaldur Zenki flytja fyrirlesturinn "Steinkona fæðir barn um nótt" að Kletthálsi 1 og í beinu streymi á fésbókarsíðu Zen á Íslandi - Nátthaga. Fyrirlesturinn er öllum opinn og hefst stundvíslega kl. 9:15. Birting þessarar stundar hefur alltaf verið og mun alltaf vera handan þess sem við getum skilið. Allur heimurinn birtist samtímis hér og nú og á sér hvorki fortíð né framtíð. Japanski zenmeistarinn Fuyo Dokai tjáði handanleika tilverunnar með því að segja: „Fjöllin bláu ganga án afláts; steinkona fæðir barn um nótt.“ Hvað átti hann við? -Zenki Eins og áður segir verður fyrirlesturinn í beinu streymi á fésbókinni en einnig er hægt að koma og sitja hugleiðslu kl. 08.00 að Kletthálsi 1 og hlusta á fyrirlesturinn þar. Í djúpu gassho vonumst við til að sjá ykkur öll. Næsta laugardag 12. nóvember mun Zen á Íslandi - Nátthagi halda leshring að Kletthálsi 1, 2. hæð. Við lesum þá kaflann "Að snúa ljóma ykkar innávið" úr bókinni "Ekkert upphaf, enginn endir" eftir Jakusho Kwong-roshi, í þýðingu Brynjars Shoshin. Við byrjum dagskrá laugardagsins með Zazen hugleiðsluiðkun kl. 08:00 en leshringurinn er svo frá kl. 10:15 - 11:15. Allir eru velkomnir og við vonumst til að sjá ykkur sem flest. Í kaflanum segir meðal annars:
"Það myndi varla trufla nokkuð ef ský tækju að birtast á himninum, rétt eins og það myndi varla trufla að ótal öldur birtust í hafinu. Einmitt þetta er lífsvirkni himins / hafs. Hið upphafslausa rými, hið takmarkalausa fagurbláa himinn / haf – tómið, með því á ég við ótakmarkaða, tæra, eðlilega vitund – meðtekur það allt fyrirhafnarlaust. Þetta er hugur ykkar, kjarni sjálfseðlis ykkar án takmarkanna, ekkert upphaf, enginn endir. Þetta er ljómi ykkar upprunalega huga." Djúpt Gassho. |
Eldra
January 2025
HöfundurZen á Íslandi Efni |
Zen á Íslandi | Fréttir og tilkynningar |
Vertu vinur okkar á Facebook
|
Bankareikningur
kt. 491199-2539 reikn. 111-26-491199 |