Næsta laugardag, 21. mars mun Ástvaldur Zenki-sensei flytja fyrirlesturinn "Öldur aldanna" í beinu streymi á fésbókarsíðu Zen á Íslandi - Nátthaga. Eins og þegar fyrirlestur er haldinn í húsakynnum okkar að Kletthálsi þá er fyrirlesturinn á laugardaginn öllum opinn og hefst hann stundvíslega kl. 10:00. Öldur aldanna eru allar hér. Á sama tíma og þær rísa og hníga er allt fullkomlega kyrrt. Zen hugleiðsla, eða Zazen, er iðkun sem byggir ekki á orðum eða hugmyndafræði heldur beinir iðkandinn athygli sinni að því sem er akkúrat núna án þess að vilja breyta neinu. Og Ástvaldur spyr: En hvernig fer maður handan orða og hugmynda og hversvegna ætti maður að gera það? Áður en fyrirlesturinn hefst á laugardaginn þá iðkum við hugleiðslu frá kl. 09:00. En í stað þess að sitja saman að Kletthálsi eins og venjan er þá situr hver heima hjá sér. Með þessu fyrirkomulagi sýnum við í verki samfélagslega ábyrgð og um leið stuðning hvert við annað á flóknum og erfiðum tímum.
"Þó að hornsteinn iðkunar okkar sé að hittast og iðka saman sem Sanga þá er iðkun okkar án landamæra. Heimurinn og þú eruð eitt, það sem þú gerir fyrir sjálfan þig gerirðu fyrir heiminn líka." -Ástvaldur Zenki-sensei
9 Comments
![]() Kæru félagar, Að vel yfirlögðu ráði hefur stjórn Zen á Íslandi ákveðið að breyta tímabundið okkar sameiginlegu iðkun. Í stað þess að sitja saman zazen á Kletthálsi 1 situr hver heima hjá sér. Þannig sýnum við í verki samfélagslega ábyrgð og um leið stuðning hvert við annað á flóknum og erfiðum tímum. Við munum að sjálfsögðu endurskoða þessa tilhögun í ljósi upplýsinga frá framvarðasveit sóttvarna, sem breytast dag frá degi. Ég legg til að við höldum daglegri iðkun okkar áfram en sitjum í 40 mínútur í hvert sinn. Heimadagskrá: Þriðjudagar, miðvikudagar og föstudagar kl. 7:20 (40 mínútur). Mánudagar og fimmtudagar kl. 17:30 (40 mínútur). Laugardagar kl. 9:00 (40 mínútur). Laugardaginn 21. mars kl. 10:00 verð ég með Dharmaræðu á Facebook live. Ræðan hefur fengið nafnið: Öldur aldanna. VIð munum láta vita af nánari útfærslu á næstu dögum. Ég vil benda á að það er alltaf hægt að hafa samband við mig. Best er að senda mér skilaboð á Messenger og ef óskað er eftir því getum við tímasett símtal í kjölfarið. Þó að hornsteinn iðkunar okkar sé að hittast og iðka saman sem Sanga þá er iðkun okkar án landamæra. Heimurinn og þú eruð eitt, það sem þú gerir fyrir sjálfan þig gerirðu fyrir heiminn líka. Við förum varlega og gleymum ekki að njóta lífsins og munum að vakandi athygli er vafalaust eitt sterkasta vopnið þegar kemur að því að verja ónæmiskerfið okkar gegn vírusum. Í anda Zen, Ástvaldur Zenki Næstkomandi laugardag 7. mars munum við halda leshring hjá Zen á Íslandi - Nátthaga, að Kletthálsi 1, 2. hæð til hægri. Í þetta sinn lesum við "Lauslega þýtt brot úr bókinni 'Ekkert upphaf, engin endalok', eftir Jakusho Kwong Roshi". Í þessu broti talar Kwong-roshi meðal annars um orðatiltækið menmitsu no kafu, en þar segir hann:
Á meðan [Zen meistarinn Tatsugami] var [í heimsókn] á Tassajara, kynnti [hann] orðatiltækið menmitsu no kafu, sem ég hef minnst á áður. Þetta hugtak er mjög mikilvægt fyrir þau okkar sem iðkum að hætti Soto. Suzuki-Roshi sagði að menmitsu no kafu þýddi að 'vera varkár þegar maður gerir hlutina' og 'vera mjög nærgætinn'. Það gæti líka falið í sér að tileinka þér skapgerð, tjáningu, og dýpt kennara síns. Þann tíma sem Tatsugami var gestakennari á Tassajara gerði hann þetta orðtak lifandi ljóst." Við byrjum dagskrá laugardagsins með zazen, eða sitjandi hugleiðslu, kl. 08:00 en leshringurinn er svo frá kl. 10:15 - 11:15. Allir eru velkomnir og við vonumst til að sjá ykkur sem flest. Djúpt Gassho. |
Eldra
January 2025
HöfundurZen á Íslandi Efni |
Zen á Íslandi | Fréttir og tilkynningar |
Vertu vinur okkar á Facebook
|
Bankareikningur
kt. 491199-2539 reikn. 111-26-491199 |