Núna um helgina, 16. - 20. maí, lauk dásamlegu Vorsesshin Nátthaga í Skálholti. Þetta var dálítið öðruvísi Sesshin þar sem við vorum ekki í Skálholtsbúðum eins og síðustu ár heldur vorum við í aðalbyggingu Skálholtsskóla og með eldhús-aðstöðu í Selinu. Þessi aðstaðan var nákvæmlega nóg, og hélt hún fallega utan um iðkun okkar og gerði þetta Sesshin í raun að lúxus-Sesshin. Zazen hugleiðsla eru grunnur Zen iðkunar og var það líka á þessu Vorsesshin. Í hugleiðslunni tökumst við á við líkama okkar og hugsanir, við finnum og leyfum. Hugsanir koma og fara og við sveiflumst fram og til baka, kannski dálítið eins og veðrið í Skálholti, eina mínútuna var hávaða rok svo hvein í og grenjandi rigning, en næstu mínútuna var svo sól og logn. Týpískt íslenskt veður og týpísk mannleg hugsun.
Þetta Sesshin var svokallað Genzo-e Sesshin þar sem Darmafræðsla er fyrirferðarmikil. Fræðslan var undir stjórn Mikhael Zentetsu og snerist að þessu sinni um Oryoki og Matmálssútrurnar. Mikhael hafði þýtt mikinn texta Okumura-roshi um sútrurnar, sem við lásum saman og ræddum um. Svo settum við saman spurningar og dældum á óundirbúna kennara okkar. Úr varð mjög skemmtilegt spjall. Við kunnum Mikhael sérstakar þakkir fyrir að halda utan um fræðsluna á sinn einstaka hátt. Þar að auki bauð Ástvaldur Zenki okkur iðkendunum uppá Dokusan, sem er prívat viðtal milli kennara og nemanda. Það var mikil ánægja með þessi viðtöl og þökkuðu margir iðkendur sérstaklega fyrir þau í kveðjuhringnum í lok helgarinnar. Einnig hélt Zenki skemmtilega Darmaræðu á laugardeginum þar sem hann fræddi okkur bæði um fyrstu ár iðkunar sinnar með Nátthaga, las áhrifamikið ljóð eftir Uchiyama-roshi og kenndi Darma eins og honum einum er lagið. Eftir góða iðkun og miklar kyrrsetur fékk líkaminn langþráða hreyfingu í göngutúrum um fallegt umhverfi Skálholts, þegar veður leyfði. Þegar veðrið var ekki gott til útiveru þá leiddi Mikhael Zentetsu okkur í Qigong æfingar, sem var mjög vel tekið. En Qigong æfingar hafa ekki verið stundaðar á Sesshin hjá Nátthaga í nokkur ár þótt þau hafi verið reglulegur siður hér áður fyrr. Skemmtilegt. Þetta Sesshin snerist dálítið um mat, kannski óumflýjanlega þar sem Darmafræðslan var um Matmálssútrurnar og sumir iðkendur voru að kynnast Oryoki í fyrsta sinn. En fyrir þá sem höfðu kynnst Oryoki áður þá dýpkaði stúdering okkar á Matmálssútrunum óhjákvæmilega Oryoki iðkun okkar á matmálstímum. Að vera Tenzo, Zen kokkur, á Sesshin er í sjálfu sér stórt hlutverk, en þegar eldhúsaðstaðan er þar að auki í öðru húsi en iðkunaraðstaðan þá verður álagið enn meira. Brynjar Shoshin Tenzo og þjónarnir hverju sinni þurftu að hlaupa með mat milli húsa þegar Oryoki fór fram í Zendo-inu. Svo vel var að þessu öllu staðið að við hinir iðkendurnir tókum í raun ekkert eftir þessu og nutum bara kræsinganna í hvert sinn. Mikið þakklæti til Brynjars Shoshin fyrir indælan mat. Svo kunnum við Ino okkar, Gyðu Myoji, sérstakar þakkir fyrir að stjórna þessu öllu og í raun búa til þessa yndislegu helgi fyrir okkur öllsömul. Okkur langar að þakka kennurum okkar, Ástvaldi Zenki og Helgu Kimyo, fyrir alla þeirra innsýn og leiðbeiningu til handa Darmanu og öllum skynverum. Að lokum viljum við svo þakka öllum þeim sem mættu og tóku þátt, fyrir yndislega helgi saman. Hlakka til að sjá ykkur öll niðri á Grensásvegi á komandi vikum, í sumar og svo í haust á nýjum stað. Kolbeinn Seido tók fullt af flottum myndum eins og þessi hópmynd sem hér fylgir gefur glögglega til kynna. Hann hefur góðsamlega deilt þeim með okkur hér á heimasíðu okkar. Njótið vel.
0 Comments
|
Eldra
September 2024
HöfundurZen á Íslandi Efni |
Zen á Íslandi | Fréttir og tilkynningar |
Vertu vinur okkar á Facebook
|
Félag
Zen á Íslandi-Nátthagi kt. 491199-2539 |
Bankareikningur
kt. 491199-2539 reikn. 111-26-491199 |