Shogaku Shunryu Suzuki-roshi (1904-1971) var arftaki að þeirri iðkunarhefð sem hófst með japanska Zen meistaranum Dogen á 14. öld og er nú kennd við Soto Zen skólann. Eftir að hafa notið viðurkenningar í heimalandi sínu í fjöldamörg ár sem Zen prestur í Soto Zen hefðinni kom Suzuki-roshi til San Francisco í Kaliforníu árið 1959, þá 57 ára að aldri.
Koma Zen meistarans kvisaðist út og margir leituðu til Suzuki-roshi í San Francisco til að kynnast Zen iðkun. Suzuki-roshi hreifst af einlægni þessara Vesturlandabúa og fann að þeir bjuggu yfir "hug byrjandans" eins og hann kallaði það, og ákvað hann því að setjast að í borginni. Hann stofnaði Zen setrið í San Fransisco og einnig Tassajara klaustrið við Big Sur í Kaliforníu, fyrsta Zen klaustrið á Vesturlöndum. Kennsla og störf Suzuki-roshi leiddu til þess að mörg önnur Zen setur voru stofnuð um gervöll Bandaríkin. Hann er höfundur bókarinnar "Zen Mind, Beginners Mind" sem kom út í íslenskri þýðingu Vésteins Lúðvíkssonar árið 1986 undir nafninu "Zen hugur, hugur byrjandans". "Í huga byrjandans er hugmyndin "ég hef öðlast eitthvað!" ekki til. Allar sjálfhverfar hugsanir takmarka hug okkar. Iðkun okkar getur aldrei orðið fullkomin. Það má ekki verða til þess að við missum móðinn heldur verðum við að halda áfram að iðka. Í því liggur leyndardómur iðkunarinnar." - Shunryu Suzuki-roshi, "Zen hugur, hugur byrjandans" í íslenskri þýðingu Vésteins Lúðvíkssonar.
|
Zen á Íslandi | Shunryu Suzuki-roshi |
Vertu vinur okkar á Facebook
|
Félag
Zen á Íslandi-Nátthagi kt. 491199-2539 |
Bankareikningur
kt. 491199-2539 reikn. 111-26-491199 |