Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Ástvaldur Zenki og Gyða Myoji, sem bæði hafa hlotið prestsvígslu hjá Kwong-roshi, en Ástvaldur Zenki gegnir stöðu kennara í Nátthaga. Kennt er í aðsetri Zen á Íslandi á Grensásvegi 8 og er námskeiðið öllum opið, óháð trúar- og lífsskoðunum.
Þátttökugjald er 15.000 kr. en námskeiðið er ókeypis fyrir þá sem greiða árgjald í Nátthaga. Innifalið í þátttökugjaldi er dagleg iðkun á meðan á námskeiðinu stendur. Gjafabréf á námskeiðið er í boði og geta áhugasamir sent póst á [email protected]. Með ósk um gleðilega hátíð og blessunar á nýju ári.
0 Comments
Nú á laugardaginn 16. desember er síðasti iðkunardagur ársins og verður þá haldinn Dagur vakandi athygli. Dagurinn hefst að venju kl. 8:00 með hugleiðslu en svo tekur við bæði Oryoki morgunverður (við borð), Soji vinnuiðkun og leshringur. Við ljúkum svo deginum með setum og gönguhugleiðslu. Þegar við iðkum á Degi vakandi athygli leyfum við ljósi hinnar vakandi athygli að skína og iðkum af heilum hug. Að leshringnum undanskildum iðkum við í hljóði.
LESHRINGUR - WAKA LJÓÐ DOGENS Árni Björn Árnason mun leiða leshringinn þennan laugardag. En leshringurinn ber titilinn "Waka ljóð Dogens". Árni Björn ætlar að kynna fyrir okkur nokkur af waka ljóðum Dogens Zenji, með hliðsjón af lokaritgerð sinni frá japönskudeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber yfirskriftina „Svipur hins upprunalega“, en það er titillinn á þekktasta waka-ljóði Dogens, sem og helsta viðfangsefni ritgerðarinnar. Ritgerðina má finna hér í Skemmunni, rafrænu gagnasafni Háskóla Íslands. En ásamt því að vera fyrirtaks sýnishorn úr japanskri miðaldarljóðlist eru waka-ljóðin til vitnis um óvenjuleg tök Dogens á tungumálinu, en ólíkt prósaverkunum tjá þau djúpa sýn hans á veruleikann með fáum látlausum orðum. Árni Björn lauk námi í japönsku á nýliðnu vori, og hefur undanfarin ár lagt stund á zen búddisma undir handleiðslu Shohaku Okumura Roshi. ORYOKI - MORGUNMATUR AÐ HÆTTI ZEN Vinsamlega skráið ykkur til þáttöku fyrir hádegi á föstudag, með því að senda tölvupóst á [email protected], svo Tenzo geti gert viðeigandi ráðstafanir fyrir morgunmat.
Mörgum iðkendum finnst það langur tími að sitja í 4 klukkustundir í senn. En þau sem hafa setið Rohatsu segja okkur að tíminn breytist þegar maður situr zazen í langan tíma. Klukkustund getur virst sem tuttugu mínútur og tuttugu mínútur geta virst klukkustund. Þessi breytta upplifun tímans á sér stoðir í kennslu Dainin Katagiri-roshi, sem við höfum verið að lesa síðustu laugardaga. Sagan á bak við þennan dag uppljómunar er í raun saga búddismans. Hún er líka saga um andlegt ferðalag eins manns til uppljómunar, svo og saga kennslu hans og þeirra aðferða sem hann kenndi okkur til að lifa lífinu. Þegar þessi maður, Siddhartha Gautama, fann leiðina til uppljómunar þá leiddist hann af braut þjáningar, og endurfæðingar, inn á braut uppljómunar og varð þá þekktur sem hinn uppljómaði, Shakyamuni Búdda, eða bara Búdda. Siddhartha Gautama fæddist með silfurskeið í munni, í höll í Lumbini í kringum árið 563 fyrir krist. Honum var haldið frá þjáningum lífsins, veikindum og dauða, með því að hleypa honum ekki út úr höllinni þar sem hann ólst upp. En dag einn, þegar hann var vaxinn úr grasi, hafði gifst og eignast barn, fór hann úr höllinni og sá í fyrsta sinn veikan mann, gamlan mann, lík dáins manns og heilagan mann. Þessar sýnir höfðu mikil áhrif á hann og þá, 29 ára, ákvað hann að fara að heiman 29 ára og lifa sem heimilislaus maður. Hann fórnaði þannig lystisemdum þess forréttindalífs sem hann lifði til þess að leita leiða til að losna undan hinum óumflýjanlegu þjáningum sem fylgja því að eldast, veikjast og deyja. Hann fylgdi hinum ýmsu heilögu mönnum og lærði af þeim allt sem hann gat, en enginn þeirra hjálpaði honum áleiðis á leið hans undan þjáningunni. Siddhartha hitti indverskan munk sem iðkaði mjög öfgafullann sjálfsaga, sjálfsneitun og einsetu. Þar sem Siddhartha hafði iðkað hugleiðslu og komist að þeirri niðurstöðu að hugleiðslan ein og sér næði ekki markmiðinu þá prófaði hann nú að fylgja þessari iðkun öfgafulls sjálfsaga og sjálfsneitunar. Hann píndi sjálfan sig, t.d. hélt hann niðri í sér andanum endalaust og fastaði þar til rifbein hans stóðu svo til út í loftið. Svona iðkaði hann í hjartnær sex ár, en enn og aftur komst hann að þeirri niðurstöðu að þannig kæmist hann ekki undan þjáningunni, svo hann sagði líka skilið við þessa gerð iðkunar. Sagan segir að hann hafi minnst þess að hafa upplifað djúpa hugleiðslu þegar hann var ungur drengur undir eplatré á fallegum degi, og uppgötvaði þá að hann þyrfti að vinna með sínu eigin eðli til að öðlast uppljómun, ekki refsa líkama sínum heldur þyrfti hann á líkamlegum styrk og betri heilsu að halda. En hann leitaði samt ekki aftur í lúxus síns fyrra lífs heldur fylgdi því sem kallast miðjuleiðin, hvorki lúxus né fátækt, hvorki of né van. Dag einn ákvað Siddhartha svo að setjast niður við fíkjutré í Bodh Gaya. Hann ákvað að iðka hugleiðslu þar til hann myndi finna rót þjáningarinnar, og leiðina undan þjáningunni. Undir trénu sat hann inn í nóttina og öðlaðist þá skilning á sínum fyrri lífum og fyrri lífum allra skynvera, hann öðlaðist skilning á karma og að lokum skilning á að hann væri nú laus við allar hindranir og án bindinga. Þegar hann skildi að hann væri laus undan samsara sagði hinn uppljómaði Búdda: "Húsbyggir, þú sést! Þú byggir ekki meir. Búdda var uppljómaður! Hann hafði fundið það sem hann leitaði að.
Til að byrja með nægði það Búdda að hafa uppljómast og ætlaði hann bara að sitja og iðka í stöðu uppljómunar. En Brahma, konungur guðanna, kom til hans og bað hann að deila nýfundnum skilningi sínum með öllum heiminum. Búdda setti þá í gang hjól þekkingarinnar: í stað tilbeiðslu guða þá snýst búddismi um hið tímalausa mikilvægi kennslunnar, eða Darmað. Næstu 45 árin kenndi Búdda um Darmað, hann kenndi hin fjögur göfugu sannindi, hann kenndi um þjáninguna, um uppruna þjáningarinnar, að það sé til lausn undan þjáningunni og leiðina til lausnar undan þjáningunni. Búdda kenndi mörgum nemum, sem sjálfir uppljómuðust og urðu þekktir sem hinir verðugu eða göfugu. Búdda dó 80 ára gamall, líklega í kringum árið 483 fyrir krist í Kushinagar. Það er vegna þessarar stórkostlegu sögu sem við höldum uppljómunardag Búdda hátíðlegan og iðkum sitjandi hugleiðslu inn í nóttina. Með von um að þið sjáið ykkur fært að mæta. |
Eldra
September 2024
HöfundurZen á Íslandi Efni |
Zen á Íslandi | Fréttir og tilkynningar |
Vertu vinur okkar á Facebook
|
Félag
Zen á Íslandi-Nátthagi kt. 491199-2539 |
Bankareikningur
kt. 491199-2539 reikn. 111-26-491199 |