Þann 1. september hófst vetrariðkun Zen á Íslandi, en dagskrá hennar breytist örlítið þetta haustið: DAGLEG ZEN IÐKUN Í HAUST
Þar að auki hófst haustdagskráin með ræðu Ástvaldar Zenki síðasta laugardag. En á dagskrá haustsins má finna vinnuiðkun, setudaga, námskeið, leshringi, ræður og Borgarsesshin. Zen iðkun er góð gjöf til sjálfs þíns og tækifæri til að staldra við og vera betur til staðar í annasömu hversdagslífi.
Í djúpu gassho vonumst við til að sjá ykkur öll.
0 Comments
Næstkomandi laugardag 3. september 2022 mun Zen kennari okkar Ástvaldur Zenki flytja fyrirlesturinn "Hvert sem þú ferð..." að Kletthálsi 1 og í beinu streymi á fésbókarsíðu Zen á Íslandi - Nátthaga. Fyrirlesturinn er öllum opinn og hefst stundvíslega kl. 9:15. Ástvaldur Zenki segir: "Ég velt því stundum fyrir mér hvernig standi á því að friður og jafnrétti sé svona mikil áskorun fyrir okkur mannfólkið? Hvað er það sem stendur í vegi fyrir því að við getum lifað í sátt og samlyndi í friði og jafnrétti? Það er alla vegana ekki það að við skiljum ekki afleiðingar stríðs og ófriðar því afleiðingar stríðs eru augljósar.
Lífið okkar er alltaf hér og hvert sem við förum höfum við tækifæri til að velja. Erum við tilbúin til að velja frið og jafnrétti? Hefur þú hugrekki til að taka afdráttarlausa afstöðu með lífinu hvert sem þú ferð og hvar sem þú ert? Iðkun vakandi athygli er gátt friðar og jafnréttis. Í slíkri iðkun öðlumst við dýpri skilningi á okkar eigin tilveru og getum séð okkur sjálf í skýrari ljósi. Hvernig við erum til og hvernig við erum órjúfanlegur hluti af öllu sem er. Hvernig okkar eigin hugsanamynstur valda okkur sjálfum og öðrum þjáningu. Mörg okkar hafa sett sér markmið um að gefa sjálfum sér meiri tíma. En oft endum við fyrr en varir sjálf neðst á verkefnalistanum og hlaupum frá verkefni til verkefnis og höfum áhyggjur af því að vera ekki nóg. Með því að sjá okkar eigin tilveru í skýrleika höfum við möguleika á því að breyta, leysa upp gömul og úr sér gengin hugsana- og hegðunarmynstur. Ert þú tilbúin til að velja lífið? Getur verið að stríðið sé nær en okkur grunar?" Eins og áður segir verður fyrirlesturinn í beinu streymi á fésbókinni en einnig er hægt að koma og sitja hugleiðslu kl. 08.00 að Kletthálsi 1 og hlusta á fyrirlesturinn þar. Í djúpu gassho vonumst við til að sjá ykkur öll. Vorsesshin Zen á Íslandi - Nátthaga verður haldið í Skálholtsbúðum 18-22. maí 2022 undir yfirskriftinni Að taka skrefið afturábak! Þátttökugjald er 42.000 kr. en 37.800 kr. fyrir iðkendur sem greiða árgjald, og skráning er á [email protected]. En vegna skipulagningar langar okkur því að biðja ykkur um að skrá ykkur sem fyrst. Athugið að það verður boðið upp á oryoki kennslu í setunni að Kletthálsi laugardaginn 14. maí. Sesshin er nokkurra daga samfelld hópiðkun og getur þýtt "að snerta hug og hjarta" sem vísar til þess að á Sesshin nálgumst við og verðum nánari okkar upprunalega hug. Iðkun fer fram í þögn og með vakandi athygli, þannig gefum við hvert öðru rými og einbeitum okkur að hinni einu stund. En Sesshin er þannig sérstakt tækifæri sem okkur býðst til að halda uppi anda Zen iðkunar til blessunar og heilla fyrir okkur sjálf, fjölskyldu okkar og allt samfélagið.
Dagskráin hjálpar iðkendum að gefa sig fyllilega að því sem á vegi þeirra verður hverju sinni, í hugleiðslusetum, gönguhugleiðslu, kyrjun, vinnuiðkun og sameiginlegum máltíðum, en þátttakendum gefst líka tími til hvíldar á milli dagskrárliða. Máltíðir fara fram í formlegri oryoki athöfn þrisvar sinnum á dag en utan þeirra er boðið upp á kaffi og snarl í hvíldarpásum. Með von um að sjá ykkur sem flest í Skálholti. Djúpt gassho.
Næstkomandi laugardag 30. apríl 2022 mun Zen kennari okkar Ástvaldur Zenki flytja darmaræðuna "Um daginn og veginn" í húsnæði okkar að Kletthálsi 1, 2. hæð og í beinu streymi á fésbókarsíðu Zen á Íslandi - Nátthaga. Ræðan er öllum opinn og hefst stundvíslega kl. 9:15. En hann segir:
"Við eigum það öll sameiginlegt að vita í raun ekki hvað dagurinn ber í skauti sér eða hvað á vegi okkar verður. Framvinda dagsins og hinn hlykkjótti vegur er okkur hulin hvort sem okkur líkar betur eða verr. „Lífið er sitt eigið undur” eins og japanski zen meistarinn Shunryu Suzuki orðaði það. Við blekkjum okkur með því að halda því fram að við höfum einhverja stjórn á framvindu lífsins og okkur finnst við vera sjálf að lifa lífinu í eigin krafti en sannleikurinn er sá að lífið lifir okkur. Japanski zen meistarinn Dogen Zenji sagði: „Að við lifum í krafti okkar sjálfra og skiljum allt er blekking. Að lífið birtist og skilur sig sjálft er uppljómun". Að sleppa tökunum og stíga skref afturábak, kallast að vakna til lífsins, að vera með lífinu eins og lífið vill vera með þér. Í ljósi aðstæðna í heiminum í dag er það einmitt það sem við þurfum hvað mest á að halda, að vakna til lífsins. Við getum ekki látið aðra vakna til lífsins, við getum einungis vaknað sjálf. Þess vegna er framtíðin í þínum höndum." Til blessunar öllu lífi. Á morgun, laugardaginn 9. apríl verður haldin Jukai athöfn hjá Zen á Íslandi - Nátthaga að Kletthálsi 1, 2. hæð. Það eru tveir iðkendur sem taka Jukai á morgun, en með því taka þeir lífsgildin sem sín grunngildi í lífinu, og þar með skýra afstöðu með lífinu og gegn hverskyns ofbeldi og óréttlæti. Við munum einnig halda upp á afmæli Búdda þennan laugardag, en það gerum við með því að fara upp að altarinu og lauga Búdda vatni undir kyrjun söngunnar. Báðar þessar athafnir eru blátt áfram og fallegar og benda á lífið í sinni tærustu mynd. Í von um að sjá ykkur sem flest, djúpt Gassho. Við byrjum Jukai athöfnina klukkan 10. Látum hér fylgja með kennslu úr bókinni How to Cook Your Life eftir Dōgen og Kosho Uchiyama-roshi:
"Það mun alltaf vera hellingur af hlutum sem við þurfum að gera. Við munum aldrei ná að koma lífinu, né heldur vinnunni eða bara eldhúsinu okkar, í þannig ástand að við séum bara sátt. Við getum aldrei staðið undir þeim væntinum sem við sjálf gerum. Það er alltaf eitthvað sem má betur fara. Lífið er ekki fyrirfram ákveðið og við komumst því aldrei til enda, þar sem við gætum bara sest niður og horft sátt yfir. Það eina sem gerist, þegar tíminn líður, er að við höfum betri og betri skilning á hlutunum, við sjáum lífið sífellt skýrar og geta okkar til að takast á við óvænta atburði sem koma upp verður betri og betri. Og það mun alltaf eitthvað koma upp, alltaf. Heiður himininn er sífellt að búa til ný ský. Potturinn sýður stanslaust." Þrjár djúpar beygjur. Gassho. Næsta laugardag 2. apríl mun Zen á Íslandi - Nátthagi halda leshring að Kletthálsi 1, 2. hæð. Við lesum þá kafla í þýðingu Brynjars Shoshin, úr bókinni "Ekkert upphaf, enginn endir" eftir Jakusho Kwong-roshi. Við byrjum dagskrá laugardagsins með Zazen hugleiðsluiðkun kl. 08:00 en leshringurinn er svo frá kl. 10:15 - 11:15. Allir eru velkomnir og við vonumst til að sjá ykkur sem flest. Í bókinni segir meðal annars:
"Þegar þú iðkar setu þá geta komið upp margskonar tilfinningar. Þegar þér finnst ganga vel, þá elskarðu að iðka; þegar þér gengur ekki svo vel í zazen, þá hatarðu það, og stundum líður þér bara eins og vélmenni sem situr án þess að það hafi nein áhrif. Það getur því verið erfitt að setjast niður og halda áfram að iðka. En eftir áralanga iðkun, ákveðin í að gefast ekki upp, þá breytist setan í eina nánustu stund sem við eigum með okkur sjálfum. Ánni virkilega langar til sjávar, svo eins og Bodhidharma, snúum við okkur að veggnum og leyfum ljósinu að lýsa inn á við, í átt að uppsprettu hugans. Og þá, frá því mikla tómi sem á sama tíma er -núið- og -handan alls- þá hljóðlega uppljómumst við." Djúpt Gassho. Næstkomandi laugardag 26. mars 2022 mun Zen kennari okkar Helga Kimyo, heiðursroshi og einn af stofnendum Zen á Íslandi - Nátthaga, flytja fyrirlesturinn "Gömul saga og ný" að Kletthálsi 1. Fyrirlesturinn er öllum opinn og hefst stundvíslega kl. 9:15.
Við munum sitja hugleiðslu kl. 08.00 að Kletthálsi 1 og svo hefst fyrirlesturinn kl. 9:15. Í djúpu gassho vonumst við til að sjá ykkur öll.
Á morgun laugardaginn 5. mars mun Zen á Íslandi - Nátthagi halda leshring að Kletthálsi 1, 2. hæð. Við lesum þá kaflann "Að taka afturábak skrefið" í þýðingu Brynjars Shoshin, úr bókinni "Ekkert upphaf, enginn endir" eftir Jakusho Kwong-roshi. Í kaflanum segir meðal annars:
Við byrjum dagskrá laugardagsins með Zazen hugleiðsluiðkun kl. 08:00 en leshringurinn er svo frá kl. 10:15 - 11:15. Allir eru velkomnir og við vonumst til að sjá ykkur sem flest.
Djúpt Gassho. Næstkomandi laugardag 12. febrúar 2022 mun Zen kennari okkar Ástvaldur Zenki flytja darmaræðuna "Lífið (með stórum staf)" í húsnæði okkar að Kletthálsi 1, 2. hæð og í beinu streymi á fésbókarsíðu Zen á Íslandi - Nátthaga. Ræðan er öllum opinn og hefst stundvíslega kl. 9:15. Zenki mun tala um það hvernig Zen búddismi lítur á tilveruna og hvernig við getum fundið sátt í Lífinu (með stórum staf) jafnvel þó að við getum ekki sagt hvað það er. En hann segir meðal annars: Það er okkur mönnunum mikilvægt að vita, að útskýra allt mögulegt og ómögulegt. Við samsömum okkur því að vita. „Ég hugsa, þess vegna er ég” eins og René Descartes orðaði það. En þrátt fyrir það hefur engum tekist að segja hvað lífið er í raun og veru. Við erum því í grunninn eitthvað sem við getum ekki sagt hvað er. Ef við vitum ekki og getum ekki sagt það, hvað erum við þá? Hvað er líf og hvað er dauði? Hvað getur þetta verið? Hvernig get ég verið eitthvað sem ég get ekki sagt hvað er? -Zenki Í djúpu gassho vonumst við til að sjá ykkur öll.
|
Eldra
June 2025
HöfundurZen á Íslandi Efni |
Zen á Íslandi | Fréttir og tilkynningar |
Vertu vinur okkar á Facebook
|
Bankareikningur
kt. 491199-2539 reikn. 111-26-491199 |