Kæri viðtakandi,
Markmið Zen á Íslandi - Nátthaga er að starfrækja og viðhalda iðkun Sótó Zen Búddisma á Íslandi. Í Nátthaga er því haldið úti öflugri dagskrá allan ársins hring sem samanstendur af sitjandi hugleiðslu (zazen) sex daga vikunnar ásamt ýmissi annarri fræðslu og öðrum viðburðum (sjá dagskrá Nátthaga 2019-2020). En félagið gæti ekki haldið úti þessari glæsilegu dagskrá ef ekki kæmi til annars vegar vinna meðlima félagsins í sjálfboðinni iðkun og svo hins vegar styrkir til félagsins. Árin 2019 og 2020 marka mikil tímamót í yfir 30 ára sögu Zen iðkunar á Íslandi. Á þessu ári fluttum við í nýtt og stærra húsnæði að Kletthálsi 1 og er nú í gangi vinna við að innrétta það. En breytt húsnæði mun betur þjóna vaxandi starfsemi félagsins og gera okkur kleift að efla þjónustu okkar enn frekar við íslenskt samfélag, til dæmis hvað athafnir og fræðslu varðar. Einnig eru þessar breytingar mikilvægt skref í þeirri framtíðarsýn okkar að byggja upp Zen-miðstöð á Íslandi. Einnig stendur til að taka upp embætti Ábóta á komandi vori eins og hefð er fyrir á Zen iðkunarstöðum um allan heim. Samhliða því mun Zen á Íslandi öðlast sjálfstæði og viðurkenningu Sotoshu, alþjóðlegu Zen-samtakanna í Japan. Samkvæmt lögum um trú- og lífsskoðunarfélög á Íslandi fá þau greidd sóknargjöld frá hinu opinbera fyrir hvern skráðan meðlim. Sóknargjöldin eru mikilvægur þáttur í rekstri trúar- og lífsskoðunarfélaga, sérstaklega þeirra sem minni eru. Því er mikilvægt að hver og einn hugsi sig vel um hvað varðar sóknargjöldin í þeirra nafni. Teljir þú starfsemi Zen á Íslandi þýðingarmikla þá er okkur mikill styrkur í að þú skráir þig í trúfélagið. Ef þú ert þegar skráður þá þökkum við stuðninginn og vonum að þú verðir félagi áfram. Viljir þú gerast félagi er auðvelt að breyta trúfélagsskráningu sinni (sjá leiðbeiningar á heimsíðu okkar). Athugaðu að til þess að sóknargjöld í þínu nafni renni til Zen á Íslandi - Nátthaga árið 2020 þarf að breyta skráningunni fyrir sunnudaginn 1. desember næstkomandi. Að lokum viljum við taka fram að öllum er velkomið að taka þátt í dagskrá Zen á Íslandi - Nátthaga, óháð trúar- og lífsskoðunum. Fyrir hönd Zen á Íslandi – Nátthaga, Alfred Chozetsu Þórðarson Forstöðumaður Zen á Íslandi - Nátthaga Ástvaldur Zenki Traustason Kennari Zen á Íslandi – Nátthaga
0 Comments
Leave a Reply. |
Eldra
February 2025
HöfundurZen á Íslandi Efni |
Zen á Íslandi | Fréttir og tilkynningar |
Vertu vinur okkar á Facebook
|
Bankareikningur
kt. 491199-2539 reikn. 111-26-491199 |