Óvenjuleg fæðing [Kafli úr bókinni Sagan af Siddarta prins - Búdda, boðbera friðar og kærleika eftir Jonathan Landaw í þýðingu Sigurðar Skúlasonar. Bókin er myndskreytt af Janet Brooke, en myndin sem fylgir þessum pósti er ein af hennar frábæru myndum.] Endur fyrir löngu gerðist í litlu konungsríki á Norður-Indlandi atburður sem átti eftir að hafa áhrif í öllum heiminum. Maja drottning, eiginkona hins góða konungs Súddódana, lá sofandi og dreymdi yndislegan draum. Henni fannst að hún sæi skínandi bjart ljós á himninum sem lýsti niður til hennar og í miðju ljóshafinu birtist stórfenglegur fíll. Hann var mjallahvítur með sex stórar skögulgennur. Þessi fíll kom fljúgandi úr ljósinu, færðist nær og nær drottningunni og að lokum rann hann saman við líkama hennar. Maja drottning vaknaði og fann til meiri hamingju en hún hafði nokkru sinni upplifað áður. Hún flýtti sér til konungsins og saman fóru þau á fund vitringanna við hirðina og spurðu þá hvað þessi furðulegi og dásamlegi draumur gæti táknað. Vitringarnir svöruðu: "Ó, yðar hátignir, þetta er óviðjafnanlegur draumur! Hann táknar það að drottningin muni fæða son og að prinsinn sá muni dag einn verða mikill maður. Þetta einstaka barn sem drottningin mun fæða verður ekki aðeins ykkur til gæfu, heldur gjörvöllum heiminum." Þegar konungur og drottning heyrðu þetta urðu þau yfir sig glöð. Einkum varð konungurinn glaður, því hann þráði að eignast son sem myndi erfa konungsríkið eftir hans dag. Og nú virtist ósk hans ætla að rætast.
Vitrir menn um allt konungsríkið tóku eftir þessum teiknum friðar og gleði og sögðu hver við annan í ákefð: "Einhver mikil gæfa hefur gerst. Sjáið öll þessi dásamlegu teikn! Þetta hlýtur að vera alveg einstakur dagur!" Maja drottning, sem hafði enga hugmynd um, að sú gleði sem hún fann til vegna fæðingar sonar síns, hafði strax breiðst út um allt konungsríkið, tók barnið í fang sér og sneri aftur til konungshallarinnar. Þetta gerðist í byrjun fjórða mánaðar í Indlandi (maí-júní) og tunglið var að verða fullt. Það er þessi fæðing Búdda, sem búddistar halda upp á í byrjun apríl, og við ætlum að hittast og halda uppá núna á laugardaginn kemur.
Hlakka til að sjá ykkur öll! Í gassho, -Alfred Chozetsu
0 Comments
Leave a Reply. |
Eldra
September 2024
HöfundurZen á Íslandi Efni |
Zen á Íslandi | Fréttir og tilkynningar |
Vertu vinur okkar á Facebook
|
Félag
Zen á Íslandi-Nátthagi kt. 491199-2539 |
Bankareikningur
kt. 491199-2539 reikn. 111-26-491199 |