Rohatsu er japanska og vísar til dags uppljómunar Búdda og hefð er fyrir því að halda daginn hátíðlegan og sitja hugleiðslu inn í nóttina. Við hjá Zen á Íslandi - Nátthaga sitjum því hugleiðslu frá kl. 22:00 föstudagskvöldið 6. desember næstkomandi og til kl. 02:00 aðfararnótt laugardagsins. Dagur uppljómunar Búdda er hátíðisdagur allra búddista. Þá höldum við uppá að Siddhartha Gautama uppljómaðist sem Shakyamuni Búdda. Sagan á bak við þennan dag uppljómunar er í raun saga búddismans. Hún er líka saga um andlegt ferðalag venjulegs manns til uppljómunar, svo og saga kennslu hans og þeirra aðferða sem hann kenndi okkur til að lifa lífinu. Þegar þessi maður, Siddhartha Gautama, fann leiðina til uppljómunar þá leiddist hann af braut þjáningar og endurfæðingar, inn á braut uppljómunar og varð þá þekktur sem hinn uppljómaði, Shakyamuni Búdda, eða bara Búdda.
Iðkendur sem ekki hafa setið Rohatsu velta því gjarnan fyrir sér hvort þetta sé ekki langur tími til að iðka sitjandi hugleiðslu, í 4 klukkustundir. En reyndin er sú, að sögn þeirra sem áður hafa setið Rohatsu, að tíminn breytist þegar maður situr zazen í langan tíma. Klukkustund getur virst sem tuttugu mínútur og tuttugu mínútur geta virst sem klukkustund. Við viljum því hvetja alla iðkendur til að mæta og upplifa Rohatsu með okkur núna í byrjun desember mánaðar. Það er engin seta laugardagsmorguninn á eftir. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest á föstudagskvöldið.
0 Comments
Kæri viðtakandi,
Markmið Zen á Íslandi - Nátthaga er að starfrækja og viðhalda iðkun Sótó Zen Búddisma á Íslandi. Í Nátthaga er því haldið úti öflugri dagskrá allan ársins hring sem samanstendur af sitjandi hugleiðslu (zazen) sex daga vikunnar ásamt ýmissi annarri fræðslu og öðrum viðburðum (sjá dagskrá Nátthaga 2019-2020). En félagið gæti ekki haldið úti þessari glæsilegu dagskrá ef ekki kæmi til annars vegar vinna meðlima félagsins í sjálfboðinni iðkun og svo hins vegar styrkir til félagsins. Árin 2019 og 2020 marka mikil tímamót í yfir 30 ára sögu Zen iðkunar á Íslandi. Á þessu ári fluttum við í nýtt og stærra húsnæði að Kletthálsi 1 og er nú í gangi vinna við að innrétta það. En breytt húsnæði mun betur þjóna vaxandi starfsemi félagsins og gera okkur kleift að efla þjónustu okkar enn frekar við íslenskt samfélag, til dæmis hvað athafnir og fræðslu varðar. Einnig eru þessar breytingar mikilvægt skref í þeirri framtíðarsýn okkar að byggja upp Zen-miðstöð á Íslandi. Einnig stendur til að taka upp embætti Ábóta á komandi vori eins og hefð er fyrir á Zen iðkunarstöðum um allan heim. Samhliða því mun Zen á Íslandi öðlast sjálfstæði og viðurkenningu Sotoshu, alþjóðlegu Zen-samtakanna í Japan. Samkvæmt lögum um trú- og lífsskoðunarfélög á Íslandi fá þau greidd sóknargjöld frá hinu opinbera fyrir hvern skráðan meðlim. Sóknargjöldin eru mikilvægur þáttur í rekstri trúar- og lífsskoðunarfélaga, sérstaklega þeirra sem minni eru. Því er mikilvægt að hver og einn hugsi sig vel um hvað varðar sóknargjöldin í þeirra nafni. Teljir þú starfsemi Zen á Íslandi þýðingarmikla þá er okkur mikill styrkur í að þú skráir þig í trúfélagið. Ef þú ert þegar skráður þá þökkum við stuðninginn og vonum að þú verðir félagi áfram. Viljir þú gerast félagi er auðvelt að breyta trúfélagsskráningu sinni (sjá leiðbeiningar á heimsíðu okkar). Athugaðu að til þess að sóknargjöld í þínu nafni renni til Zen á Íslandi - Nátthaga árið 2020 þarf að breyta skráningunni fyrir sunnudaginn 1. desember næstkomandi. Að lokum viljum við taka fram að öllum er velkomið að taka þátt í dagskrá Zen á Íslandi - Nátthaga, óháð trúar- og lífsskoðunum. Fyrir hönd Zen á Íslandi – Nátthaga, Alfred Chozetsu Þórðarson Forstöðumaður Zen á Íslandi - Nátthaga Ástvaldur Zenki Traustason Kennari Zen á Íslandi – Nátthaga Næstkomandi laugardag 23. nóvember munum við halda leshring hjá Zen á Íslandi - Nátthaga, að Kletthálsi 1, 2. hæð til hægri. Í þetta sinn lesum við textann "Allt Zazen" eftir Issho Fujita í þýðingu Jónu Shiko. En í textanum segir Issho Fujita meðal annars "Hins vegar, líkt og Sawaki Roshi lét hafa eftir sér, ,,Ef það svo mikið sem örlar á persónulegum áhuga, þá verður zazen aldrei tært og ómengað”. Af þeim sökum, þá gildir einu hversu ákaft við iðkum af persónulegum hvötum, þá er ekki hægt að iðka zazen. Til að zazen sé að sönnu zazen, þá liggur þetta stranga skilyrði fyrir og býður ekki upp á málamiðlun." Við byrjum dagskrá laugardagsins með zazen, eða sitjandi hugleiðslu, kl. 08:00 en leshringurinn er svo frá kl. 10:15 - 11:15. Allir eru velkomnir og við vonumst til að sjá ykkur sem flest. Djúpt Gassho.
Næsta laugardag, 16. nóvember frá kl. 09:15 - 10:15 mun Ástvaldur Zenki-sensei flytja Darmaræðu í húsakynnum Nátthaga að Kletthálsi 1, 2. hæð til hægri. Yfirskrift ræðunnar er "Vakandi athygli, fræ heilunar". Ástvaldur segir: "Enginn vex úr grasi án þess að þróa með sér kerfi til að lifa af, einskonar varnarkerfi sem er í raun eðlileg viðbrögð barns við óeðlilegum aðstæðum. Þegar fram líða stundir höldum við áfram að þróa varnarkerfið okkar, mynstur sem felur í sér mikla þjáningu, okkar persónulegu þjáningu. Fáir, ef einhverjir, sleppa. Öll erum við meira eða minna þrælar þessara vana- og varnarkerfa og bregðumst við, eins og nafnið gefur til kynna, af vana og oftast óafvitandi. Þessi Mynstur viðhaldast afþví að við sjáum ekki, lítum okkur ekki nær eða gefum okkur tíma til að staldra við og horfa af vakandi athygli, einlægni og heiðarleika djúpt inn í tilveruna þar sem fræ heilunar liggur í dvala. Með því að beina okkar náttúrulegu, vakandi athygli að stundinni vökvum við fræ heilunar."
Allir eru innilega velkomnir á ræðuna næsta laugardag og aðgangur er ókeypis. Athugið að dagskrá laugardagsins hefst með sitjandi hugleiðslu kl. 08:00. Níu djúpar beygjur. Laugardaginn 2. nóvember frá kl. 08:00 - 13:00 verður haldinn Dagur vakandi athygli hjá Zen á Íslandi - Nátthaga. Dagskráin hefst kl. 08:00 með tveimur zazen hugleiðslusetum og gönguhugleiðslu inn á milli. Svo tekur við morgunverður og leshringur. Við munum lesa textann "Að snúa útgeislun sinni innávið" úr bók kennara okkar Jakusho Kwong-roshi í þýðingu Óskars Ingólfssonar. En þar segir meðal annars: Uppspretta án uppsprettu. Ástæðan fyrir því að það er kallað uppspretta án uppsprettu er sú að uppsprettan er okkar upprunalegi hugur, sem við erum hluti af. Það er ekki talað um "án uppsprettu" til að gefa því frumlegt nafn. Ef við segjum aðeins "uppspretta" virðist það vera eitthvað ákveðið og í framhaldi af því leitum við þessarar uppsprettu. Hvað er átt við þegar talað er um eitthvað "án uppsprettu?" Hvað er það? Við hvorki skiljum né getum skilgreint það á hlutlægan hátt eins og við erum vön, en í þeim heimi sem er "án uppsprettu" finnum við þann stað sem tilheyrir djúpu samadhi í zazen. Þegar við höfum lesið textann og rætt hann okkar á milli þá ljúkum við Degi vakandi athygli með því að hugleiða aftur tvisvar með gönguhugleiðslu inn á milli. Þegar við iðkum á Degi vakandi athygli leyfum við ljósi hinnar vakandi athygli að skína og iðkum af heilum hug. Vonumst til að sjá ykur sem flest.
Næstkomandi laugardag 26. október munum við halda leshring hjá Zen á Íslandi - Nátthaga, að Kletthálsi 1, 2. hæð til hægri. Í þetta sinn lesum við textann "Í zazen þar sem ekkert er að öðlast" eftir Issho Fujita í þýðingu Brynjars Shoshin. Issho Fujita er japanskur Zen prestur sem tók vígslu í Antai-ji hofinu þar sem Kodo Sawaki og Uchiyama Roshi voru ábótar á sínum tíma, en við höfum lesið mikið af textum þessara miklu kennara í gegnum árin. Fujita flutti til Massachusetts í Bandaríkjunum þar sem hann var ábóti í Pioneer Valley Zendo, sem er systur hof Antai-ji í Bandaríkjunum. Á þessum tíma kenndi Fujita í mörgum háskólum og 2010 var hann gerður að stjórnanda Soto Zen International Center í San Francisco. Fujita er skemmtilegur kennari sem reynir að finna upp á nýjum og skemmtilegum leiðum til að dýpka hina einföldu iðkun zazen og shikantaza. Á myndinni sem fylgir, og tekin var í heimsókn Issho Fujita til Sonoma Zen Center, má m.a. sjá Helgu Kimyo-roshi, Nyoze Kwong, Issho Fujita fyrir miðju, Ástvald Zenki vinstra megin við hann og Jakusho Kwong-roshi kennara okkar hægra megin. En í textanum sem við lesum næsta laugardag fjallar Fujita um mikilvægi þess með hvaða viðhorfi við sitjum á púðanum og meðal annars: Væri ekki alveg í lagi að segja að gæði zazen séu í raun háð þessu viðhorfi sem við höfum jafnvel áður en við byrjum að iðka zazen? Hvað varðar raunverulega zazen iðkun okkar er útkoman nánast ákveðin áður en við 'stígum upp á sviðið.' Þegar við setjumst á púðann, með hvaða viðhorfi mætir þú zazen? Leynast ekki í huganum einhverjar væntingar um að þú munir fá eitthvað í skiptum fyrir iðkun zazen? Hve djúpur er skilningur þinn á að zazen er ekki leið til að ná einhverju? Við byrjum dagskrá laugardagsins með zazen, eða sitjandi hugleiðslu, kl. 08:00 en leshringurinn er svo frá kl. 10:15 - 11:15. Allir eru velkomnir og við vonumst til að sjá ykkur sem flest. Djúpt Gassho.
Næsta laugardag, 19. október frá kl. 09:15 - 10:15 mun Ástvaldur Zenki-sensei flytja Darmaræðu í húsakynnum Nátthaga að Kletthálsi 1, 2. hæð til hægri. Yfirskrift ræðunnar er "Vakandi athygli í dagsins önn". Ástvaldur segir: "Að iðka Zazen hjálpar okkur að vera vakandi í eigin lífi, að vera samstíga lífinu og alheiminum og að vera meðvitaður um það hvað það er að vera manneskja. Ekki bara á yfirborðskenndan hátt heldur á djúpan og einlægan máta. Með iðkun vakandi athygli lærum við að vera heiðarleg við okkur sjálf og taka eftir því hvað er að gerast í kringum okkur og hvernig við bregðumst við í okkar vanamynstri. Við lærum að staldra við og sjá djúpt og skýrt og gangast við öllu sem er. Þannig tökum við ábyrgð á eigin lífi sem er um leið líf okkar allra, stærra og víðfeðmara en við getum ímyndað okkur. Slík iðkun hjálpar okkur að stíga út úr okkar þjáningarfulla vanamynstri og taka þátt í lífinu á einlægari hátt.
Allt breytist stöðugt og oftast ekki í samræmi við okkar eigin væntingar og vilja. Hversu lengi búumst við við að lifa? Hversu lengi njótum við samvista við fjölskyldu og vinum sem við elskum? Lífið er dýrmætt og viðkvæmt og í senn fallegt og hættulegt. Með því að iðka Zazen lærum við að meta lífið og lifa til fulls. Að lifa til fulls er að vera óhræddur og sjá skýrt að það hvernig við kjósum að lifa lífinu hefur áhrif á allt, að líf einnar manneskju er ekki aðskilið öðru lífi. Ekkert hefur sjálfstæða tilveru aðskilda öllu öðru. Í miðjum erli hversdagsins gerist lífið, sem í fljótu bragði virðist óreiðukennt og kvikt. En þegar betur er að gáð sjáum við það skýrt að lífið er fullkomlega kyrrt og alltaf akkúrat hér og nú, getur hvergi annarsstaðar verið. Og ef við sitjum hljóð og leggjum við hlustir Þá heyrum við lífið hvísla; Viltu ekki vera memm?" Allir eru innilega velkomnir á ræðuna næsta laugardag og aðgangur er ókeypis. Athugið að dagskrá laugardagsins hefst með sitjandi hugleiðslu kl. 08:00. Níu djúpar beygjur.
Miðvikudagur 2. október
19:30 Zazen 19:45 Leiðbeinandi opnun 20:05 Kinhin 20:15 Zazen 20:50 Heitin fjögur Fimmtudagur - Föstudagur 07:00 Zazen 07:35 Kinhin 07:45 Zazen 08:20 Kyrjun - Iðkun í dagsins önn 17:30 Zazen 18:00 Kinhin 18:10 Zazen 18:40 Heitin fjögur Laugardagur 5. október 07:00 Zazen 07:35 Kinhin 07:45 Zazen 08:20 Kyrjun - Oryoki - Hlé 10:00 Samu / Vinnuiðkun 10:45 Morgunkaffi 11:15 Zazen 11:45 Kinhin 11:55 Zazen 12:25 Kyrjun - Oryoki - Hlé 14:00 Zazen 14:30 Kinhin 14:40 Zazen 15:10 Heitin fjögur-Kveðjuhringur Næstkomandi laugardag 28. september kl. 10:00 í húsnæði Zen á Íslandi að Kletthálsi 1 munu Ástvaldur Zenki og Gyða Myoji segja sögu af ferðalagi sínu, þjálfun og zen iðkun í japönsku klaustri núna í sumar . Ástvaldur Zenki er sem sagt nýkominn heim eftir 3 mánaða iðkun og þjálfun í Zen klaustrinu Toshoji í Japan. Í janúar 2018 afhenti Jakusho Kwong Roshi Zenki kennsluna til að miðla áfram sem Zen kennari og var dvölin í Japan liður í því ferli. Gyða Myoji, eiginkona Zenki og Zen nunna, dvaldi í Toshoji í einn mánuð og saman deila þau ferðasögu sinni með okkur á laugardaginn í máli og myndum. Við byrjum dagskrá laugardagsins með sitjandi hugleiðslu kl. 08:00. Ferðasagan verður svo sögð frá kl. 10:00. Allir eru velkomnir og við vonumst til að sjá ykkur sem flest.
Zazen, sem þýðir sitjandi hugleiðsla, byggir á öndun og vakandi huga. Iðkun zazen er grundvöllur þess sem í daglegu tali kallast núvitund (e. mindfulness) eða vakandi athygli. Með því að læra að iðka Zazen ræktum við smám saman með okkur vakandi huga og meðvitund í daglegu lífi og lærum að þekkja okkur sjálf á djúpan og náinn hátt. Að þekkja sjálfa sig á þennan hátt felur í sér fræ heilunar og kennir okkur að meta lífið sem við lifum.
Markmið námskeiðsins er m.a.:
Námskeiðið kostar 15.000,- kr. og verður kennt á fimmtudögum frá kl. 17:30-19:00. Innifalið í námskeiðsgjaldi er þátttaka í allri dagskrá hjá Nátthaga á meðan námskeiðið varir og eru þátttakendur eindregið hvattir til að prófa að taka þátt í daglegri iðkun samkvæmt dagskrá. Þátttakendum er einnig velkomið að taka þátt í fræðsluviðburðum sem boðið er upp á: leshringjum, darmaræðum og mörgu fleiru. Kennarar á námskeiðinu eru Ástvaldur Zenki Sensei, sem hefur formlega lokið þjálfun og hlotið réttindi til kennslu innan Soto Zen hefðarinnar, ásamt Kolbeini Seido og Brynjari Shoshin sem hafa áralanga reynslu af hugleiðsluiðkun Hvar: Klettháls 1, önnur hæð til hægri þegar komið er upp stigann. Hvenær: Fimmtudagarnir 10., 17., 24. og 31. október. kl. 17:30-19:00. Allir eru hjartanlega velkomnir í nýtt húsnæði okkar að Kletthálsi 1 og er námskeiðið óháð trúar- eða lífsskoðunum. Námskeiðið er ætlað byrjendum sem lengra komnum og öllum þeim sem þrá að lifa lífinu lifandi og með vakandi athygli. Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á zen@zen.is og greiða 15.000,- kr. námskeiðsgjald inn á reikning félagsins... Kennitala: 491199-2539 Reikningsnúmer: 111-26-491199 ...eða með því að kaupa námskeiðið sem vöru í vefverslun Zen á Íslandi - Nátthaga hér á vef félagsins með því að smella á hnappinn hér að neðan: |
Eldra
December 2019
HöfundurZen á Íslandi Efni |
Zen á Íslandi | Fréttir og tilkynningar |
Vertu vinur okkar á Facebook
|
Félag
Zen á Íslandi-Nátthagi kt. 491199-2539 |
Bankareikningur
kt. 491199-2539 reikn. 111-26-491199 |